8.2.05Einn og hálfur mánuður og ekkert blogg. Meira að segja komið nýtt ár. Jesús, María, Jósep og lærisveinarnir líka. En ekki hafa stórar áhyggjur, ég hef ekkert breyst. Ég er ennþá bitur, pirruð, orðljót og alveg agalega neikvæð. Enda hef ég enga ástæðu til annars.

Það sprakk á bílhelvítinu tvisvar sama daginn í síðustu viku. Ég og Sara vorum á leiðinni upp í Egilsstaði klukkan 6 um morguninn og vorum komnar inn á Reyðarfjörð þegar skrjóðurinn fer að gefa frá sér eitthvað furðuleg hljóð. Ég kippi mér nú lítið upp við þau en finnst samt undarlegt að hann virðist ekki komast hraðar en á c.a. 40 km hraða og það er ekki hægt að snúra stýrinu. Þannig ég ákveð nú að það sé vissara að tjékka á málunum. Jújú framdekkið sprungið og við komnar c.a. 2-3 kílómetra frá Reyðafirði. Og klukkan helvítis hálf sjö að morgni og ekki nokkur lifandi maður vaknaður nema ég. Og Sara auðvitað. Klukkan sjö bregð ég á það ráð að hringja í svokallaða foreldra mína, já eins og gefur að skilja kann ég að sjálfsögðu ekki að skipta um dekk. Pabbi var nú ekkert alveg á þeirra skálminni að koma og bjarga frumburðinum úr prísundinni, ó nei. Heldur var mér sagt að labba á verkstæðið inni á reyðarfirði og ég á STUTTBUXUNUM. Ég reyndi að koma þeim í skilning um að það væri 40 stiga frost úti en mér var víst bara nær að hafa ekki buxur meðferðis í bílnum þegar ég færi í þessar svaðilfarir mínar í ræktina á Egilsstöðum. Ég hlýddi að sjálfsögðu en klukkan var ennþá bara hálf sjö og ekkert djöfulsins verkstæði opið fyrr en allavega átta. Þannig að við stöllur settum miðstöðina í botn og reyndum að ná hita í kroppinn áður en haldið var á stað gangandi eftir þjóðveginum á stuttbuxum í 79 stiga frosti. Við gátum ekki einu sinni hlustað á græjurnar á meðan við biðum því hátalarnir í andskotans bílnum gáfu upp öndina fyrir stuttu. Elska þennan bíl.

Við illan leik komumst við svo á verkstæði á Reyðarfirði. Og vöktum við geysilega athygli þar berleggjaðar, allar í tjöruslettum eftir flutningabílana sem straujuðu okkur næstum á leiðinni. Ég var að sjálfsögðu ekki svo heppin að hægt væri að gera við dekkið heldur var það alveg handónýtt og andskotinn ég hefði sko keyrt um á þremur dekkjum ef ég gæti það. En nei ég varð að gjöra svo vel að kaupa nýtt dekk á 6000 kall, það er eitt skópar, við skulum alveg hafa það á hreinu!

Við lifðum þetta ævintýri sem betur fer af. En seinna um daginn asnast ég aftur inn á Reyðafjörð til þess að fjárfesta í nýju rúmi. Með bros á vör og sólina í augunum kem ég valhoppandi út úr húsgagnaversluninni en tek þá eftir að bílinn er nú eitthvað skakkur. Þegar nánar var að gáð var sprungið á hinu framdekkinu. Ég var svo bitur að ég var að pæla í að grýta í sjóinn hinumeginn við götuna. Ég hringi á verstæðið sem ég heimsótti fyrr um morguninn og kynnti mig sem stelpuna á stuttbuxunum og þeir voru ekki lengi að koma að bjarga mér. Og jújú sama sagan, dekkið í hakki og ég orðin 12.000 krónum fátækari.

Þegar ég kom heim gerði ég mér svo grein fyrir því að ég var 62.000 krónum fátækari eftir þennan dag því rúmið kostaði víst peninga. Ég lýsti mig gjaldþrota og reyndi svo að kæfa mig með koddanum mínum. En það tókst að sjálfsögðu ekki.

Bless