20.11.04

Ég er svo ógeðsleg að ég gæti ælt yfir sjálfa mig. Ég er ein heima og ég galdraði þennan svakalega morgunmat fram úr erminni. Snakk, súkkulaðirúsínur og möffins. Þessu var svo skolað niður með óhóflegu magni af diet kóki. Ég er svona að íhuga hvað ég eigi að fá mér í kaffinu. Það er reyndar kökubasar úti í bæ. Nei jesús. Þá færi ég nú alveg yfir strikið. Ég þyrfti svo sem ekkert að éta alla kökuna. Bara rétt að gæða mér á henni. Æ ég myndi pottþétt éta hana alla og færi létt með það. Í kvöldmat hef ég svo hugsað mér að fá mér pizzu. Og seinna í kvöld bjór. Ég get verið nokkuð viss um að leggja ekki mikið af í dag. Ég gæti aldrei farið í megrun þar sem mætti hafa nammidag. Ég er bara eins og alki, ef ég tek nammidag á laugardegi þá er ég ennþá að éta nammi á miðvikudegi.

Jæja, kannski ég kíki á þennan kökubasar...
...bara kíkja ekki kaupa
Í útskriftargjöf vil ég fá nýjan bíl. Ég er búin að klessa minn. Geislaspilarinn er alltaf með einhver helvítis dólgslæti. Ruslið í honum er svo mikið að það er ekki hægt að taka það til. Vetradekkin undir honum eru of stór þannig að hljóðin í honum eru eins og í gömlum traktor. Ég myndi alveg þiggja Yaris. Hann þyrfti ekki einu sinni að vera nýr. Einu sinni átti ég Yaris. Sá hann samt aldrei.

Er samt nokkuð sátt með að hafa átt kútinn í 4 mánuði án þess svo mikið sem að rispa hann. En það kom að sjálfsögðu að því. Þrykkti honum framan á gangstéttarbrún með miklum látum fyrir stuttu. Og það sér alveg slatta á greyinu. Held meira að segja að stuðarinn sé allur farinn að lafa. Hugsa sér að bílinn hafi verið eins og nýr þegar ég fékk hann. Ég er líka búin að keyra hann 10.000 kílómetra og það lengsta sem ég hef farið er Akureyri. Ótrúlegt alveg hreint.

Úff...

17.11.04

Jæja, djöfullinn hafi það!

Ég lenti ægilega í því í dag. Ég var að dröslast í vinnuna klukkan eina mínútu í átta í morgun (eða nótt eins og ég kýs að kalla það) og mér til mikillar gleði sást varla í helvítis bílskrjóðinn fyrir snjó. Ég skafaði nógu mikið af honum til að komast klakklaust í vinnuna, nánar tiltekið gerði ég lítinn hring á framrúðuna og ekkert meir. Fer inn og ætla að keyra af stað og djöfulsins nei, bílinn spólar bara eins og geðsjúklingur í stæðinu. Og klukkan orðin 7 mínútur yfir átta. Ég ætlaði sko ekki fyrir mitt litla líf út og leysa bílinn þannig ég hélt áfram að spóla og vonaði nú að hann myndi hafa þetta. En nei. Svo var komin einhver skrýtin lykt og magnið á bensínmælinum fór sífellt lækkandi. Ég blótaði alveg eins og ég gat á meðan ég flautaði og flautaði og hélt í þá veiku von að faðir minn kæmi hlaupandi og leysti dóttur sína úr prísundinni. Ó nei. Guðmundur lét ekki á sér kræla og klukkan orðin korter yfir átta. Jæja eina leiðin var að hafa mitt feita rassgat út úr bílnum og tjékka á stöðunni. Mér til mikillar undrunar var enginn helvítis snjór fyrir framan né fyrir aftan bílinn. Ég tók örlítið bræðiskast, sparkaði í bílinn og fór aftur inn. En nei. Ennþá var hann fastur. Og klukkan var aaaalveg að verða hálf níu. Þegar ég ætlaði út í annað sinn rek ég augun í mælaborðið. Viti menn var ekki helvítis bílshelvítið bara í HANDBREMSU. Ef ég hefði ekki verið orðin svona sein í vinnuna hefði ég hoppað undir næsta bíl. En það gafst enginn tími í það. Snarvitlaus í skapinu mætti ég alltof seint í vinnuna og blótaði pabba í sand og ösku fyrir að koma ekki út og leysa mig.

jæja bless