30.9.04

Óóó, ég sit í þessum töluðu orðum uppi í rúmi hjá mér. Já á netinu. Ó ánægjutilfinningin sem umlykur mig. Ég vissi að ég gæti allt. Tölvukarlinn sagði að leiðbeiningarnar frá símanum væru vitlausar. Helvítis Símahelvíti.

Annars gæti ég gert í buxurnar úr pirringi. Fokkin bílasalinn sem seldi mér bílinn minn á sínum tíma skuldar mér pening. Ókei reyndar bara 4000 kall en só? 4000 kall er 4000 kall. Fólk í Afríku gæfi af sér höndina fyrir 4000 kall. Ég er búin að rukka hann einu sinni og hann alveg "jájájá legg þetta inn strax...bara strax!" En ó nei. Ekkert gerist. Ekki það að mig sárvanti eitthvað þennan pening en mig langar samt ekkert að gefa honum hann! Olli hann mér ekki nógum sálrænum skaða þegar hann seldi Yarisinn sem ég var BÚIN að fokkin kaupa? Helvítis bílasalahelvíti. Ohh þetta minnir mig á að ég átti einu sinni Yaris. Í heila viku. Djöfull grenjaði ég úr mér augun þegar hann var "óvart" seldur. Gæti alveg tekið eina góða grenjusyrpu núna.

Góða nótt

29.9.04

Bendi ykkur á að gestabókin er komin aftur hérna til hliðar. Tölvukarlinn kemur ekki fyrr en á morgun. Hef ekki geðheilsu í að eiga samskipti við neinn fyrr en þá!

Bless

27.9.04

Djöfulsins fokkinhóru þráðlausa internet! Ég keypti einhvern pakka með einhverju sem heitir þráðlaust internet í! Hélt að sjálfsögðu að ég gæti sett það upp sjálf! Eftir að ég lærði að dæla bensíni í síðustu viku eru mér allir vegir færir. En nei. Helvítis djöfulsins draslið virkar ekki. Held ég sé búin að eyða samtals 10 klukkutímum í að reyna að koma þessu upp. En nei. Andskotans helvítis drasl. Konan í búðinni sagði að þetta væri "barasta ekkert mál". Kerlingarbelja. Veit ekki hvert ég á að snúa mér. Er að reyna að dobbla mömmu til þess að hringja í einhvern tölvukarl á morgun, stolt mitt leyfir ekki að ég geri það.

Já þið skuluð biðja til Guðs að það sé einhver tölvukarl á lausu, þá verð ég á netinu endalaust, allan daginn og jafnvel gæti bloggfærslum farið fjölgandi.

Andskotans drasl maður. Ég sem hélt ég gæti allt.
Ég get allt, þetta er örugglega bara eitthvað gallað drasl.

Bless

24.9.04

Djöfullinn sjálfur! Ég fór í ljós áðan og ég er svo skaðfokkinbrunnin að ég finn sortuæxlin vaxa utan á mér! Ég get ekki sofið vegna þess að mig klæjar svo og þessar ógeðslegu fokkin gelneglur sem ég fjárfesti í í síðustu viku gera ekkert gagn þegar maður þarf nánast að rífa utan af sér húðina af helvítis kláða! Ég er svoleiðis búin að baða mig í bodílósjoni að ég lykta eins og jarðaberjaakur. Ekkert virkar. Ég er sko að sviðna. Það er meira að segja hálfgerð steikingarlykt af mér.

Jesús minn en talandi um ljós. Ég og Sara höfum lagt leið okkar á Neskaupsstað til þess að fara í þessa fjárans ljósabekki. Og einu sinni sem oftar vorum við á leið þangað í niðamyrkri þegar eitthvað dýr hleypur fyrir bílinn og svo finnum við hvernig bílinn brýtur hvert einasta bein í dýrinu. Bílinn hossaðist alveg þegar við keyrðum yfir það. Sara snarhemlar alveg í sjokki og á meðan mátti ég hafa mig alla við að drulla ekki á mig úr hlátri. Jesús minn hvað þetta var ógeðslega fyndið og svipurinn á Söru. Óborganlegt alveg! Við þorðum ekkert að kíkja hvort dýrið væri dautt þannig að við höldum ferðinni bara áfram. Látum svíða af okkur húðina í helvítis bekkjunum þarna og förum svo heim. Svo förum við eitthvað að skima eftir hræinu af dýrinu. Sjáum það hvergi og Sara heldur að það hafi lifað slysið af en ég reyni að sannfæra hana um að það sér örugglega bara fast í dekkinu hjá henni. Úff svo keyrum við aðeins lengra og hóli mólí er ekki þetta risa minkshræ á veginum. Ógeðslega illa farið. Hauslaust og alles. Sara staldraði við og horfði á hræið lengur en ég hafði lyst á og taldi sér trú um að minksi hefði farið beinustu leið til himna. Svo ruglaðist ég eitthvað í ríminu og sagði alltaf frá því að ég og Sara hefðum keyrt á munk! Mikur - Munkur, enginn munur á kúk og skít!

Djöfullinn maður. Ég er brunnin ofan á augnlokunum. Mér er illt í maganum líka. Kannski af því að ég er búin að klóra inn að vélinda.

Góða fokkin nótt

15.9.04

Djöfull dreymdi mig furðulega ógeðslegan draum í nótt! Í draumnum hafði ég drepið einhvern, sá aldrei hver var hinn útvaldi. Og ég gekk um allan bæ með líkið í ruslapoka því ég vissi ekkert hvar ég ætti að setja það. Svo allt í einu er ég stödd inn á Pizza 67 og er að saxa líkið í búta og fer eitthvað að dunda mér við að pakka hverjum útlimi vandlega inn í ruslapoka. Inni á Pizzu er fullt af kæliskápum og ég er í mestu makindum við að raða líkamshlutunum inni í einn skápinn. Hef greinilega haft í hyggju að geyma þá eitthvað til betri tíma. Svo vaknaði ég alveg í svitabaði, tók augljóslega á að saxa manngarminn í búta.

Annars...þyrstir mig alveg hrikalega í djamm á föstudaginn. Sé samt ekki fram á að þeim þorsta verði svalað. Mig langar líka nýtt hár og líka í ljós. Ég er að verða eins og albínói. Mig langar líka í geisladiska. Djöfull er nýi diskurinn hennar Bjarkar gheheheðveikur! Ef svo má að orði komast.

Ég byrjaði aftur í föndrinu með ellismellunum á mánudaginn. Helvíti fínt. Nema að það gæti alveg farið með geðheilsuna þegar þær gömlu kalla mig bara Veigu. "Veigaaaa". Sparar það einhvern tíma að sleppa Guðrún? Þær eru reyndar að ná þessu núna, enda búin að garga á þær í heilan vetur og 3 daga að ég heiti GUUUUÐÐÐRÚN líka! Nei ég garga ekkert á þær, hef aldrei verið þekkt fyrir annað en mikla ljúfmennsku í garð náungans ;) Hikaði reyndar aldrei við að garga á Davíð prest í fermingarfræðslunni í den. Djöfull gat hann gert mig vitlausa þegar hann ávarpaði mig bara "Veiga". Gerði það örugglega bara til þess að fara í taugarnar á mér því honum líkaði ekkert alltof vel við mig eftir að ég tilkynnti honum að ég væri bara að fermast fyrir gjafirnar.

Jæja ég er farin. Langar annars engum út á föstudagskvöldið...
...hélt ekki!

Góða nótt

12.9.04

ég fékk fyrsta tipsið mitt um helgina. ég var að taka af borðinu hjá hjónum sem voru þýsk, að mér heyrðist. þegar þau standa svo upp og ætla að fara kemur karlinn til mín "here is your tip miss" og réttir mér fimmkall.

ég hef í hyggju að nota tipsið sem innborgun á nýjar græjur í bílinn minn. segjum að ég græði fimmkall í tips hverja helgi þá hef ég efni á nokkuð góðum græjum eftir c.a. 5000 helgar. sem að merkir að eftir 96 ár get ég krúsað um göturnar með allt í botni. djöfulsins gella verð ég.
Djöfull elska ég bílinn minn. Held samt að pabbi sé farinn að renna hýru auga til hans líka. Það fjölgar stöðugt skiptunum sem hann fær að fara "smá rúnt" eða "aðeins að skreppa". Kannski er hann með það á prjónunum að klessa hann til þess að hefna sín á mér. Það var nú víst ég sem klessti bílnum hans á sjoppuna og gerði hann nokkuð mörgum þúsundköllum fátækari. Rúllaði honum líka ofan í skurð ef út í það er farið. Rauða Þruman átti víst ekki sjö dagana sæla eftir að ég fékk bílpróf. Hún gengur nú samt ennþá blessunin. Já þetta eru augljóslega hefndaraðgerðir sem faðir minn hefur í huga. Hann ætlar að rústa bílnum mínum og setja mig á hausinn. Sé alveg í gegnum þig Guðmundur.

Ég las grein í gömlu DV í dag um mann sem er skósafnari og er víst búinn að safna voða lengi. Þetta er ekki frásögum færandi nema maðurinn átti hvorki meira né minna en 17 pör af skóm. 17 pör! Þá er ég nú greinilega mikill safnari. Og betri safnari en þessi svaka safnari þarna.

Ég er alltaf svo voðalega upptjúnuð þegar ég kem heim úr vinnunni svona á nóttunni. Get bara ekki sofnað. Guð ég fór ekki á Jónsa. Sem er af hinu góða því ég er í AfJónsun. 12 spora meðferð. Eða segir maður 12 þrepa? Örugglega þrepa.

Jæja, ég ætla inn í rúm að grenja. Ég trúi ekki að ég hafi misst af honum.

Hlýt að jafna mig.

Góða nótt.

9.9.04

Jæja, díses! Kominn tími á blogg...ha?

Margt hefur skeð. Farin og komin til og frá Reykjavík. Passaði barn í 4 daga sem varpaði ljósi á ýmislegt. Ég ætla aldrei aldrei, nei aldrei að eignast börn. Ég mun í mesta lagi ættleiða 18 ára bíafrabúa. Þetta var rosalegt. Ég þurfti alltaf að sækja barnið á leikskólann og í hvert skipti sem mitt fagra fés birtist í dyrunum kom bara skeifa á barnið og ég er ekki frá því að vottað hafi fyrir tárum. Hún er nota bene 3ja ára. Ég er viss um að fósturnar hafa haldið að ég væri að limlesta hana heima fyrir eða eitthvað því jesús minn, hvílíku fortölurnar sem þurfti til þess að fá barnið heim með mér!

Ég: Eigum við að koma heim?
Barn: NEI!
Ég: Eigum við að fara í 10-11 og kaupa nammi?
Barn: NEI! Ég vil vera hér.
Ég: Ætlar þú bara að sofa á leikskólanum?
Barn: JÁ!
Ég: Eeeenn eigum við að fara heim og horfa á Lion King?
Barn: NEI! Þú skalt bara fara heim.

Eftir c.a. 5-10 mín tókst svo að ná barninu heim. Aðallega vegna þess að fóstrunum tókst að koma henni í skiling um að "nú væru allir að fara heim"...
Get ekki sagt að móðureðlið í mér sé neitt blossandi sko. Hef ekki fundið fyrir því ennþá ef satt skal segja. Og býst ekki við að finna það. Ágætt að taka að sér móðurhlutverk svona í nokkra daga. Það mun alveg nægja mér ævina.

Annars er ég stödd á Seyðisfirði þessa stundina. Ægilega gott að koma hingað. Um leið og ég gekk inn um dyrnar var troðið í mig eplaköku, döðlubrauði, vínabrauði og svona má lengi telja og 2 tímum seinna var á borðinu suddaleg jólasteik. Nei maður leggur ekki af í dag! Svo var horft á golden moments úr æsku minni á videospólu þar sem var verið að plata þriggja ára barnið til þess að segja að þá fái ekkert að borða heima hjá sér og að mamma þess drekki bara viskí. Ansi var maður auðveldur á þessum aldri. Ég lét að sjálfsögðu borga mér í sælgæti fyrir að segja þessa hluti. Viðskiptavitið lét fljótt á sér kræla!

Svo er það bara Pizza 67 um helgina. Já þið heyrðuð rétt ég fer ekki á Jónsa. Ætla ekki að ræða þetta frekar. Svo sem rosa fínt að vinna á barnum. Myndalegir sjúkraþjálfarar í öðru hverju horni og í hinu horninu myndó verkamenn. Sem reyna allir að sjálfsögðu viðstöðulaust við mig. Reyndar gekk þetta eitthvað brösulega hjá mér síðast. Labbaði á veggi hvað eftir annað, missti bjóra í gólfið og minn stærsti ótti var að ég yrði skilin eftir ein þarna enda hafði ég miklar gætur á Kalla og elti hann hlaupandi út um allt hús ef að minnsti grunur var á að það ætti að skilja mig eftir eina. Kann nefnilega ekki að blanda eitt eða neitt. Eða þú veist...kann að sjálfsögðu að sulla en ekki að blanda svona hlutfallslega.

Já svo elska ég son leigubílsstjórans í bænum. Þú veist hver þú ert ástin!

Þangað til næst...